„Fjölmiðlafár“
Gaman var að fá að fara í Morgunútvarp Rásar tvö um daginn og svara spurningum um borgarbýlið. Við, Þórey Mjallhvít og Páll Líndal, fengum tækifæri að koma hugmyndinni á framfæri og útskýra aðeins hvað hópurinn stendur fyrir. Hér má finna viðtalið: http://www.ruv.is/mannlif/vilja-borgarbyli-i-oll-hverfi. Einnig má finna viðtal við Þóreyju Mjallhvíti í síðasta tölublaði Sumarhússins og garðsins þar sem hún lýsir sinni aðkomu að verkefninu.
Borgaráhugi
Það er frábært hversu mikill áhugi er að myndast á matjurtarækt í borginni. Fyrir nokkrum dögum kom frétt á Rúv um að samþykkt hefði verið að hvetja fólk til matjurtaræktunar á opnum svæðum. Sama dag hljómaði facebook-status Dags B. Eggertsonar svona:
„Hvar sjáið þið fyrir ykkur matjurtagarða í hverfum borgarinnar? Í nýju aðalskipulagi Reykjavíkur til 2030 (AR2030) er nefnilega frábær kafli um borgarbúskap. Þar er meðal annars talað um að stórfjölga matjurtagörðum í hverfunum. Þótt Sjálfstæðismenn hafi ekki allir stutt AR2030 þá lögðu þeir í dag til að auglýst yrði eftir hugmyndum borgarbúa um svæði fyrir matjurtagarða í borgarstjórn – og við samþykktum það að sjálfsögðu – einróma. Þannig að nú er bara að láta sér detta skemmtileg og hentug svæði í hug. Þið trúið ekki hvað þetta getur verið hugguleg viðbót við mannlífið. Bendi líka á heimasíðu aðalskipulagsins: www.adalskipulag.is“
Laugardalurinn og Íbúasamtök Laugardals
Í dag hittum við fulltrúa úr Íbúasamtökum Laugardals og ræddum lóðina við hliðin á matjurtagörðunum í Laugardalnum. Við höfum ákveðið að fara í samstarf og íbúasamtökin munu leggja fram hvatningu til borgarinnar un að Miðgarður – borgarbýli fái leyfi af afnotum af þessari lóð. Nú verður bara spennandi að sjá hvernig málin munu þróast. Borgin hefur vissulega sýnt áhuga á að fá fjölbreyttari matjurtaræktun inn í borgina. En það er ekki til opinber farvegur inn í kerfinu sjálfu. Við vonum að erindinu okkar um aðgang að lóð í Laugardalnum verði tekið vel og af röggsemi. Enda skiptir máli fyrir okkur að fá aðgang að lóðinni sem fyrst svo að við getum byrjað að skapa og rækta!