Hér má sjá Seljagarð að ofan frá. Byrjað er að reisa gróðurhúsið og líka stálrammahúsið góða. Það mun líta út eins og grískt hof, sannkallað Akrapólis eða kannski bara Seljapólis!
Vídeó tekið af Brandi Karlssyni.
Grenndargarður og gróðurhús við Jaðarsel í Seljahverfi
Í sumar verða reist tvö gróðurhús, eitt stórt og annað lítið. Einnig verður sameiginlegum reit haldið við.
Verkefnið er alfarið rekið af sjálfboðaliðum og hugsjónafólki en þrátt fyrir það höfum við komið langa leið á stuttum tíma. Við hlökkum til að sjá hvernig sumarið mun þróast og bjóðum öllum að koma og taka þátt með okkur. Við reynum að vera dugleg að láta vita hvenær við komum.
Næsta sumar verður svo haldið áfram með verkefnið, þá verður hægt að leigja sér reit til langstíma bæði á úti reit og inni í gróðurhúsi.
Í dag mætti galvaskur hópur grasróttæklinga og flutti stálramma yfir í Seljagarð. Skemmtilegur pistill um dagsverkið er hér á náttúrunni-punktur-is
Á morgun verður síðan hist á reitinum klukkan 13 þar sem nóg er að gera. Verkefni morgundagsins verða fjölbreytt og vonandi geta allir tekið þátt á eigin forsendum.
Við viljum bara helst að allir séu glaðir í sumarblíðunni með okkur, hvort sem að þeir séu að bera stálgrindu, reita arfa, syngja sjómannavalsa, spila á harmonikku eða setja niður rófur.
Á miðvikudaginn komu krakkar úr Jöklaborg og settu niður kartöflur. Þegar beðin sjást að ofan frá lítur reiturinn okkar næstum því eins og mósaík mynd. Þetta verður fallegt þegar að fræin og kartöflurnar fara að skjóta kolli.
Næstu helgi verður fjör, þá ætlum við að skella upp sæluhúsi þar sem við getum ræktað döðlur, tómata, vínber, kryddjurtir og aðrar kræsingar. Endilega kíkið við og takið þátt!
Þrátt fyrir gráan og gugginn dag mættu ótrúlega margir á fyrsta viðburð sumarsins í Seljagarði. Hér eru myndir af deginum, við bjuggum til stíga og beð í stóra moldarbeðið okkar, settum niður kartöflur og sáðum fræjum og allskyns grænmeti. Hinrik Carl frá Slow food hreyfingunni gaf okkur súpu og Markús Bjarnason spilaði fyrir okkur ljúfa tóna!
Spennandi tímar eru framundan! Hópurinn hefur ákveðið að skipta sér niður í tvö systraverkefni. Eitt mun vera í Seljahverfi en staðsetningin á öðru verkefninu kemur í ljós innan skamms.
Fyrsti opni viðburðurinn fyrir Seljagarð hefur nú verið auglýstur þar sem áhugasömum er boðið að koma og taka þátt. Fundurinn verður haldinn klukkan 14:20 laugardaginn 24. maí en staðsetningin mun vera tilkynnt síðar í vikunni. Þessi fundur er ætlaður sem kynning bæði á vistrækt (e. permaculture) og á samfélagsgörðum (e. community gardens). Þetta er tækifæri til að kynnast og sjá hverjir vilja taka þátt og hvernig. Margar leiðir eru til þátttöku og við bjóðum öllum að vera með. Á fundinum munum við einnig byrja að hanna garðinn sjálfan ef veður leyfir.
Endilega finnið okkur á feisbúkk þar sem allir viðburðir eru auglýstir!
Gaman var að fá að fara í Morgunútvarp Rásar tvö um daginn og svara spurningum um borgarbýlið. Við, Þórey Mjallhvít og Páll Líndal, fengum tækifæri að koma hugmyndinni á framfæri og útskýra aðeins hvað hópurinn stendur fyrir. Hér má finna viðtalið: http://www.ruv.is/mannlif/vilja-borgarbyli-i-oll-hverfi. Einnig má finna viðtal við Þóreyju Mjallhvíti í síðasta tölublaði Sumarhússins og garðsins þar sem hún lýsir sinni aðkomu að verkefninu.
Það er frábært hversu mikill áhugi er að myndast á matjurtarækt í borginni. Fyrir nokkrum dögum kom frétt á Rúv um að samþykkt hefði verið að hvetja fólk til matjurtaræktunar á opnum svæðum. Sama dag hljómaði facebook-status Dags B. Eggertsonar svona:
„Hvar sjáið þið fyrir ykkur matjurtagarða í hverfum borgarinnar? Í nýju aðalskipulagi Reykjavíkur til 2030 (AR2030) er nefnilega frábær kafli um borgarbúskap. Þar er meðal annars talað um að stórfjölga matjurtagörðum í hverfunum. Þótt Sjálfstæðismenn hafi ekki allir stutt AR2030 þá lögðu þeir í dag til að auglýst yrði eftir hugmyndum borgarbúa um svæði fyrir matjurtagarða í borgarstjórn – og við samþykktum það að sjálfsögðu – einróma. Þannig að nú er bara að láta sér detta skemmtileg og hentug svæði í hug. Þið trúið ekki hvað þetta getur verið hugguleg viðbót við mannlífið. Bendi líka á heimasíðu aðalskipulagsins: www.adalskipulag.is“
Í dag hittum við fulltrúa úr Íbúasamtökum Laugardals og ræddum lóðina við hliðin á matjurtagörðunum í Laugardalnum. Við höfum ákveðið að fara í samstarf og íbúasamtökin munu leggja fram hvatningu til borgarinnar un að Miðgarður – borgarbýli fái leyfi af afnotum af þessari lóð. Nú verður bara spennandi að sjá hvernig málin munu þróast. Borgin hefur vissulega sýnt áhuga á að fá fjölbreyttari matjurtaræktun inn í borgina. En það er ekki til opinber farvegur inn í kerfinu sjálfu. Við vonum að erindinu okkar um aðgang að lóð í Laugardalnum verði tekið vel og af röggsemi. Enda skiptir máli fyrir okkur að fá aðgang að lóðinni sem fyrst svo að við getum byrjað að skapa og rækta!
Þau gleðitíðindi voru að berast að hópur undir stjórn Brynju Þóru Guðnadóttur var að fá námslaunstyrk fyrir sumarið. Markmið hópsins í sumar verður að vinna að mörgum verkefnum tengdum þeim reit sem við endum á. Eins og umhverfis og vettvangskönnun, hönnun, greining á tilraunum og prófunum, upplýsingaöflun, hugmyndavinna, skissur, teikningar, gerð korta og skýringamynda og efnisöflun. Í lok verkefnisins mun standa tilraunagarður.
Hópurinn samanstendur af háskólanemendum í M.A. námi og heita Andri Þór Andrésson, María Sjöfn Dupuis Davíðsdóttir og Hjalti Guðlaugsson. Umsjón með hópnum verður Sigrún Birgissdóttir deildarstjóri Hönnunar- og arkítektúrdeildar og Thomas Edouard Pausz, Aðjúnkt í Hönnunar og arkítektúrardeil LHÍ.
Núna eru nokkrir mánuðir síðan að hugmyndin fór úr hausum okkar yfir í að vera sett á pappír og þaðan í hendur á öðrum.
En það er ekki nóg að hafa hugmyndir, maður verður líka að vera praktískur og taka réttar ákvarðanir. Staðan er sú að flestir myndu eflaust vilja fá samfélagsrekið og sjálfbært borgarbýli í hvert hverfi. En þar sem ekki er til fordæmi hér í borginni þarf að sannfæra ýmsa aðila um að dæmið gangi upp.
Við tókum þá ákvörðun um að leita til borgarinnar í leit að stuðningi. Við höfum núna lagt inn erindi að fá afnot af lóð sem er inn í miðju íbúðarhverfi. Lóðin þarf að vera minnst fjögur til fimmhundrum fermetrar að stærð og með aðgang að vatni og rafmagni.
Nú er bara að krossleggja fingur og vona að allt gangi að óskum!
Ef að þú, kæri lesandi, hefur áhuga á að taka þátt að einhverju leiti, hafðu þá samband í midgardur.borgarbyli@gmail.com og kynntu þig.